"Greining" Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu

Eins og gefur að skilja sýnist sitt hverjum og sérstaklega í eins hraðri og alvarlegri atburðarrás og átt hefur sér stað upp á síðkastið. Slíkt er eðlilegt. Fram að þessu hef ég verið þeirrar skoðunar að fullyrðingin um Glitni “stærsta bankarán Íslandssögunnar, ef ekki í heimi” hlyti nú samt að vera með því undarlegra sem maður hefur séð. Taldi ég erfitt að toppa það. Hinsvegar gerir Hallgrímur Helgason harða atlögu að þessum vafasama heiðri með stórundarlegri „yfirferð sinni yfir atburðarás undanfarinna vikna“ í Fréttablaðinu í dag (25. október). Las fólk þessa grein? Maður hefði kannski betur átt að sleppa því, því álit mitt á Hallgrími féll hraðar en gengisvísitala íslensku krónunnar og Úrvalsvísitölunnar, til samans. Það var þó hratt fall.

Hvernig er mögulega hægt að skrifa tveggja blaðsíðna grein í dagblað, sem er ætluð sem greining á ástandinu án þess að minnast á hugsanlega ábyrgð Fjármálaeftirlitsins, Samfylkingarinnar (því hún er jú helmingur ríkisstjórnarinnar nú) og viðskiptaráðherra (undir hann heyra jú svo til mest af þessum ósköpum öllum saman sem hafa verið að eiga sér stað)?

Framan af þótti mér gaman af Hallgrími, þótti hann skemmtilegur penni og gott ef nokkuð heiðarlegur, sem kom með áhugavert sjónarhorn á umræðuna. Í dag virðist hann hinsvegar vera orðinn bitlaus og ómerkilegur penni með öllu. Ef fram fer sem horfir, bendir margt til þess að hans verði helst minnst líkt og hirðlistamannsins sem “saumaði” nýju föt keisarans.

Skáldverkin sem þjóðin man verða örsögur eftir hann sem birtust í blöðum tengdum Baugi, um “pólitík”, “þjóðfélagsmál” og “bláu höndina”. Besta málverkið eftir hann verður líklegast, ómálaða málverkið sem seldist á 20 milljónir króna. Einhverjir myndu segja að þarna færi illa fyrir góðum listamanni. Ég vill þó helst að slíkt gerist ekki.

Ég vona að ég hafi ekki lesið greinina nægilega vel eða hafi misskilið hana svona stórkostlega. Er þó því miður mjög svartsýnn á það. Ætla þó að gera tilraun til að réttlæta greinina fyrir mér og taka upp hanskann fyrir Hallgrím. Undir umrædda grein í Fréttablaðinu er ritað “Hallgrímur Helgason er rithöfundur og myndlistamaður.” Rithöfundur er samkvæmt Íslenskri orðabók m.a. skilgreint sem: “(einkum) höfundur skáldverka í óbundnu máli”. Ég fæ því ekki betur séð en að hér hljóti því að vera um enn eitt skáldverk Hallgríms að ræða og hann bendi á það með þessum hætti í lokin… eða hvað? Maður spyr sig...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband