Fimmtudagur, 27. nóvember 2008
Katrín fór rangt með tilvitnun í stjórnarskrána ... ?
Yfirlýsingin sem vitnað er til í fréttinni, sýnist mér ganga út á að ræðan verði fjarlægð vegna hugsanlegs brests á trúverðugleika lagadeildar HR eða skólans, þar sem ekki virðist farið rétt með staðreyndir úr lagatextum í ræðunni. Sem þýðir væntanlega, að ræðan skuli fjarlægð af þeirri ástæðu en ekki vegna skoðana. Það væri nú væntanlega eitthvað bogið ef svo færi. Einhverjir virðast halda því fram að einungis sé krafist þess að hún verði fjarlægð vegna skoðana. Það tel ég a.m.k. alrangt að framansögðu.
Ég verð nú að játa það, að þegar ég hlustaði á ræðuna í fréttum þótti mér sum atriðin sem snúa að lögum dálítið mikið sérstök, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Annars vitna ég í Mána Atlason í því sambandi, sem skrifaði eftirfarandi færslu hér að neðan á sína heimasíðu sem má finna á slóðinni: http://mwezi.blogspot.com/2008/11/stjrnskipunarrttarkennsla-vi-hr.html.
Til fróðleiks, þá dúxaði Katrín seinasta vor í lögfræðinni. Vel gert hjá henni. Einnig hefur Máni sem vitnað er í, dúxað og verið þaulsetinn á Forsetalista Háskólans í Reykjavík í töluverðan tíma, sem verður að teljast glæsilegur árangur. Sjá nánar um Forsetalista Háskólans í Reykjavík hér.
Færslan er annars eftirfarandi:
"Af því tilefni að í nýafstöðnum mótmælum tjáði laganemi við Háskólann í Reykjavík þá skoðun sína að á undanförnum vikum hafi ríkisstjórnin brotið gegn þremur stjórnarskrárákvæðum vil ég koma því á framfæri að ég deili þessari skoðun ekki með þessum ágæta samnemanda. Einnig er rétt að taka fram að þessi skoðun nemandans er ekki kennd hér við skólann, a.m.k. ekki svo ég viti til. Stjórnskipunarréttarkennsla hér heldur sig almennt við veruleikann, þ.e. að láta ákvæði stjórnarskrár þýða það sem þau raunverulega þýða.
Nefndur nemandi hefur í gegnum tíðina farið mikinn í mótmælum, m.a. mótmælt auglýsingaherferð Coca-Cola, sannfærð um að gosdrykkjaframleiðandi hefði einsett sér að lítillækka allt sem kvenkyns er við markaðssetningu míns uppáhaldsdrykkjar.
[Því til viðbótar stóð hún einnig fyrir kæru á hendur forstjóra og stjórn Valitor - Visa á Íslandi, fyrir að stuðla að og taka þátt í dreifingu kláms, að hennar mati. Sjá nánar um það hér.]
Í ræðu á Austurvelli í dag hafði stúlkan á takteinunum 3 brot gegn stjórnarskrá.
Í fyrsta lagi að brotið hafi verið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár (72. gr.) þegar fólk tapaði sparnaði sínum í sjóðum bankanna. Nú skil ég vel að mörgum þyki leiðinlegt að tapa peningunum sínum, sjálfum þótti mér blóðugt að sjá á eftir rúmlega fimmtungi af mínum sparnaði sem ég hef lagt inn á mánaðarlega í rúm 2 ár, en það breytir engu um það að í sjóðasparnaði getur maður grætt eða tapað. Það sama gildir um hlutabréfakaup, þó að áhættan sé meiri þar. Ætli mótmælendur telji að lækkun úrvalsvísitölunnar sé líka brot á eignarrétti? Bara af því eign manna minnkar þá?
Í öðru lagi taldi laganeminn Katrín að Björn Bjarnason hefði "ógnað" tjáningarfrelsim væntanlega því sem kveðið er á um í stjórnarskrá (73. gr.), með því að gagnrýna skrif tiltekins blaðamanns. Þetta er enn framsæknari (og vitlausari) túlkun en eignarréttartúlkunin. Væri það ekki einmitt frekar brot á tjáningarfrelsi ef Björn Bjarnason mætti ekki tjá sig um skrif blaðamanna? Í tjáningarfrelsinu felst einmitt að hvað sem Birni finnst þá er þessari ágætu blaðakonu frjálst að skrifa það sem hún vill (a.m.k. innan velsæmismarka) og að sama skapi er Birni frjálst að gagnrýna hennar skrif að vild. Kannski telur Katrín að ég sé hér að brjóta gegn tjáningarfrelsi hennar með því að gagnrýna hennar túlkun á stjórnarskrá (sem henni er vissulega frjálst að tjá hverjum sem heyra vill).
Í þriðja lagi taldi laganeminn að í nýju neyðarlögunum felist brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár (65. gr.), þar sem fjármálafyrirtæki sem ríkið hefur tekið yfir eru undanþegin því að verða dregin fyrir dóm. Í 4. mgr. 5. gr. nefndra neyðarlaga (nr. 125/2008) stendur:
Ákvæði 64. og 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eiga ekki við meðan skilanefnd samkvæmt ákvæði þessu fer með málefni fjármálafyrirtækisins. Á sama tíma verður ekki komið fram gagnvart fjármálafyrirtækinu aðfarargerð á grundvelli laga um aðför eða kyrrsetningu á grundvelli laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Í 64. og 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti er vel að merkja kveðið á um heimild lánveitanda eða skuldara til að gefa bú eða krefjast þess að bú verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Það er rétt að þetta ákvæði neyðarlaganna er vissulega undarlegt, þ.e. að kröfuhafar geti ekki leitað til dómstóla til að fá kröfu sinni framgengt. En væri ekki nær, ef ætlunin er á annað borð að halda því fram að brotið sé gegn stjórnarskrá, að halda því fram að brotið sé gegn 70. gr. stjórnarskrár, þar sem m.a. segir:
70. gr. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.
Það hversu óháðar eða óhlutdrægar skilanefndir bankanna eru skal ég ekki segja til um, en ég ímynda mér að ekki þurfi dóm til að víkja þeim frá.
Annars þykir mér líka merkilegt í mótmælum hvernig æ fleiri bjóðast til að taka við stjórnartaumum landsins, bara ef þeir sem hafa verið kosnir til þess sleppa þeim. Skoðun mótmælenda virðist vera sú að allir eigi rétt á að stjórna landinu, nema þeir sem hafa einmitt verið kosnir til að stjórna landinu. Mikil virðing fyrir lýðræði á ferðinni þar."
Þetta er mjög athyglisvert, að laganemi fari ekki rétt með tilvitnun í stjórnarskrána, í ræðu á fjölmennum útifundi sem er sagt frá í öllum helstu fjölmiðlum landsins? Maður spyr sig...
Óánægð með ræðu á heimasíðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:14 | Facebook
Athugasemdir
Nákvæmlega
Sævar Einarsson, 27.11.2008 kl. 01:02
Gott hjá henni að berjast gegn klámi og niðurlægjandi auglýsingaherferðum.
Vésteinn Valgarðsson, 27.11.2008 kl. 01:45
Sæll,
Þú hittir naglann á höfuðið. Við gagnrýnum ekki persónulegar skoðanir Katrínar enda að okkar mati er öllum frjálst að tjá sína skoðun. Það sem við erum að gagnrýna er að hún fari með rangt mál á túlkun laganna og skólinn sé stoltur af slíkri frammistöðu. Um það höfum við skrifað grein sem hægt er að lesa á bls. 28 í Morgunblaðinu í dag.
Kv.
Steinar Þór Ólafsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 09:33
Hér virðist gilda almennt að tilgangurinn helgi meðalið. Þeir sem hæst fara víla ekki fyrir sér að afbaka sannleika og staðreyndir. Þetta fólk stendur á sviðinu á Austurvell, flugmælskt, og fer með fleipur og staðlausa stafi. Fólk stendur svo með kökkí hálsinum og getur ekki hyllt ræðumenn nógsamlega, burséð frá því hvort það skilur málflutnininn eða ekki. Hún má vissulega eiga það að ræðan var skemmtileg áheyrnar ef heyrandinn bara skrufar niður í skynsemi og rökvísi. Hefði innihaldið verið ríkara af réttvísi hefði ræðan verið enn betri. Ef Katrín ætlar sér að ná eitthvert í sínu fagi mun hún rekast fljótt á að svona málatilbúnaður virkar ekki þegar kemur að því að brauðfæða sig. Ég spái því reyndar að hún muni ekki eiga frama sem lögfræðingur nema að nafninu einu saman. Hún mun verða virk í stjórnmálum og ná að heilla almúgan sem vill bara fá einhvern málsvara sem svífst einskis. Samviskulausan loddara. Þar er Katrín Oddsdóttir sterk.
Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.